Góð Húsráð

HVAÐ ER ÞAÐ FYRSTA SEM MAÐUR ÆTTI AÐ EIGA Í ELDHÚSINU?

Skurðarbretti (gott að eiga eitt fyrir lauk, annað fyrir hrátt kjöt og það þriðja fyrir grænmeti/ávexti en maður getur líka verið duglegur að þrífa eitt bretti!). Mikilvægt er að eiga einn frekar stóran hníf (helst góðan) og gott væri að eiga einn lítinn fyrir grænmeti. Svo þarf maður að eiga stóran pott, lítinn pott, stóra pönnu, litla pönnu, 1 eldfast mót, stóra skál (til að hræra deig í), sleif, rifjárn (til að rífa t.d. gulrætur), sleikju, handþeytara (ef maður vill þeyta rjóma), töfrasprota (til að mauka súpur og fleira), mælikönnu fyrir desilítra og það sem er algjörlega nauðsynlegt, litla vigt. Það er auðvitað gott að fjárfesta í góðum græjum en maður kemst langt fyrstu árin við þröngan stakk þó maður kaupi ekki það dýrasta og vandaðasta í öllu. Hnífurinn ætti þó að vera dýrasta fjárfestingin. Næsta stig í eldhústækjakaupum mætti væri matvinnsluvél og blandari (blender). Þá getur maður nefnilega búið til alls kyns drykki. Ekki er verra að eiga hrærivél en það er meira "leti" en nauðsyn (maður getur vel þeytt rjóma með handþeytara og hnoðað deig í höndunum). Það er auðvitað margt annað sem kemur að gagni í eldhúsinu svona eins og hvítlaukspressa, sósupískari, wok panna, kjöthitamælir o.fl., o.fl., en maður getur dundað við að safna slíku dóti ef maður hefur áhuga.